10 skref

kóreskrar húðumhirðu

Hugsanlega hefur þú heyrt talað um hin mörgu skref kóreskrar húðumhirðu. Skrefin eru ekki endilega nákvæmlega tíu en almennt eru þetta fjölþætt skref með áherslu á að bæta húðina á blíðan máta með raka og næringu og þannig ná varanlegum árangri. Það sem heillar mig við speki kóreskrar húðumhirðu er að í grunninn snýst hún um að bera virðingu fyrir eigin húð. Í stað þess að nota hrjúf innihaldsefni sem svipta húðina náttúrulegum vörnum þá er áhersla lögð á að vinna með vistkerfi húðarinnar og hreinsa, næra, vernda og viðhalda réttum raka svo húðin dafni. Í rauninni snýst kóresk húðumhirða ekki um fylgja þessum tíu skrefum af hörku heldur að sníða aðferðarfræðina að þörfum þinnar húðar, húðgerð og daglegu umhverfi þínu þannig að þú bætir húðina innanfrá með hjálp áhrifaríkrar og fjölþættrar aðferðar.

 

Olíuhreinsir

Hin tvöfalda húðhreinsun er vel þekkt á meðal áhugafólks um kóreska húðumhirðu. Fyrst er notaður olíuhreinsir. Olía og vatn hrinda hvort öðru frá sér og því er ekki nóg að nota einfaldan vatnshreinsi til að fjarlægja öll fitug óhreinindi af húðinni. Sólarvörn, farði og húðfita eru best fjarlægð með olíuhreinsi. Það liggur ekki í augum uppi en olíuhreinsir getur reynst mjög gagnlegur ef þú ert með fituga húð. 

Vatnshreinsir

Því næst er vatnshreinsir notaður til að mjúklega fjarlægja önnur óhreinindi. Þessi tveggja skrefa hreinsun hreinsar húðina án þess að þurrka hana.

Andlitsskrúbbur

Andlitsskrúbbur er notaður daglega eða nokkrum sinnum í viku, eftir því hvernig skrúbburinn er. Yfirleitt er þetta skref á milli hreinsunar og andlitsvatns. Skrúbbun er mikilvægt skref í húðumhirðu. Það hægist á endurnýjun húðfrum með aldrinum og dauðar húðfrumur geta valdið bólum og öðrum húðvandamálum en með andlitsskrúbbi hreinsar þú þær í burtu og hjálpar einnig húðinni að taka betur við þeim húðvörum sem þú notar. 

Andlitsvatn

Ég er oft spurð hvort andlitsvatn sé í raun og veru nauðsynlegt (Já. Það er það sérstaklega ef þú notar andlitsolíur). Ég hef mikla trú á andlitsvatni þar sem það hjálpar til við að viðhalda réttu pH-gildi húðarinnar sem er mjög mikilvægt fyrir húðheilsu en auk þess hjálpar það við að koma réttu rakastigi á húðina. 

Andlitsmaski

Andlitsmaskar eru frábærir þar sem þeir eru auðveldir í notkun og umlykja andlitið raka. Andlitsmaski er notaður eftir hreinsun og andlitsvatn, með rakakremi á eftir. Í Kóreu eru andlitsmaskar jafnvel notaðir daglega með sjálfum og myllumerkjum á samfélagsmiðlum því til sönnunar. Ef þú þarft að lífga upp á húðina á stuttum tíma þá er eitt ráð að nota andlitsmaska í fimm daga í röð.

Essence

Á meðan tilgangur andlitsvatns er að viðhalda jafnvægi á pH-gildi húðarinnar þá gefur essence húðinni aukinn raka sem hjálpar til við að skapa heilbrigðara umhverfi fyrir húðina og undirbúa hana fyrir næstu skref sem fylgja. Það má því hugsa sér að húðin sé eins og svampur. Þegar hún er rök þá er hún ekki eins viðkvæm og frásogar betur.

Meðhöndlun – andlitsolíur, serum, ampúlur

Þetta skref er einna mest einstaklingsbundið. Hér er mest um vert að velja þær vörur sem henta húðinni þinni best. Hvort sem þú ert að kljást við mislita húð, bólur eða vilt gefa húðinni unglegra útlit þá innihalda þessar vörur gjarnan virk efni og þú getur notað þær samhliða hverri annarri.

Þetta skref er sérstaklega mikilvægt þar sem það gefur þér tækifæri til að kynnast húðinni þinni. Það eru margar meðhöndlunarvörur á markaðnum, bæði frá Kóreu og annarsstaðar, og þegar þú hefur fylgt þessum skrefum, hreinsun, andlitsvatn og essence, þá geturðu náð enn meiri árangri með þeim.

Til viðbótar: Ef þú ert að velta fyrir hver sé munurinn á serum og ampúlum þá eru þau mjög svipuð. Hvorutveggja innihalda virk efni gegn húðvandamálum en ampúlur eru gjarnan minna blönduð og því sterkari en serum.

Augnkrem

Á augnsvæðinu er húðin þynnst og því er það viðkvæmasta svæði andlitsins. Það þýðir að rakatap er hraðara þar og því myndast hrukkur og línur fyrr þar en annarsstaðar. Það er því lykilatriði að halda augnsvæðinu vel röku. Ef augnkremið er of höfugt og hyljandi er hætta á að það myndist þurr húð í kringum augun. Mælt er með vítamín- og andoxunarbættum augnkremum með léttari áferð sem samt vernda og veita raka.

Rakakrem

Til að tryggja sem bestan árangur af skrefunum á undan er mikilvægt að velja rakakrem sem hentar fyrir þína húð. Fyrir þurra húð er gott að nota höfugra olíublandað rakakrem en gel fyrir fituga húð. Rakakrem sem innihalda hýalúronsýru eru góð við rauðri húð en einnig góður valkostur fyrir allar húðgerðir.

Sólarvörn

Þetta skref snýst um að vernda húðina. Hvernig sem viðrar er mikilvægt að bera á sig góða sólarvörn daglega – öryggið á oddinn! Í sól er mikilvægt að bera á sig sólarvörn á nokkurra klukkutíma fresti. Við vitum öll hversu mikilvæg sólarvörn er og þó það sé vesen að bera hana á í tíma og ótíma þá mun húðin þakka þér fyrir ómakið þegar þú hefur fundið þá vörn sem þér líkar og hentar þér og komið upp þeim vana að fara aldrei að heiman án sólarvarnar. Að bera daglega á sig sólarvörn er besta leiðin til að koma í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar og viðhalda heilbrigðri húð auk þess að verja húðina gegn húðkrabbameini.