Kollagen er prótein sem framleitt er til notkunar á ýmsan hátt, meðal annars í framleiðslu á matvörum, lyfjum, snyrtivörum og hljóðfærum. Áður fyrr var það einnig notað til að framleiða lím.

Kollagen er aðaluppstöðuefni líkamans en það telur um einn þriðja af heildarpróteini í líkamanum.  Til eru að minnsta kosti sextán tegundir af kollageni en kollagen má finna meðal annars í vöðvum, beinum, sinum, hári og húð.  Orðið kollagen kemur úr grísku en forskeytið ‘kolla’ þýðir lím og ‘gen’ þýðir sköpun. Án kollagens í líkamanum myndum við linast og síga niður og því ber það nafn með rentu. 

Kollagen mætti kalla konung húðumhirðu. Með aldrinum minnkar kollagen framleiðsla líkamans umtalsvert og húðin missir náttúrulega fyllingu og þéttleika, teygjanleiki hennar minnkar og hrukkumyndun eykst. Talað er um að líkaminn byrji að hægja á framleiðslunni í kringum 25 ára aldurinn, eða um eitt og hálft prósent á ári að meðaltali. Ein leið til að halda hrukkum og dökkum blettum í skefjum er með daglegri húðumhirðu með húðvörum sem innihalda kollagen.